Sunday, September 7, 2008

Handritalestur - Efnislestur - Prófarkalestur


Meðal almennings er lítill munur gerður á handritalestri, efnislestri og prófarkalestri. Flestir líta svo á, að því að virðist vera, að prófarkalestur nái yfir allan yfirlestur og almennar lagfæringar á texta.


Svo er þó ekki.


Handritalestur fer þannig fram, að yfirlesari fær í hendurnar t.d. fyrsta eða annað handrit texta, lagfærir málfar, orðnotkun, setningaskipan og annað slíkt, ásamt innsláttar- og stafsetningarvillur.


Efnislestur á aðallega við um fræðihandrit, þar sem sérfræðingur les handritið yfir með tilliti til efnislegra þátta, annars vegar "staðreyndatékkun" og hins vegar að benda á heimildir eða eitthvað annað sem vanti. Höfundur þessa pistils hefur staðið í slíku í fjölda ára, m.a. með því að taka við handriti, þar sem höfundur hefur skilið eftir eyður af ásettu ráði, þar sem finna þarf upplýsingar sem á vantar, eða þannig, að orðræða höfundar er yfirfarin, t.d. flett upp hvort ártöl séu rétt og svo framvegis.


Prófarkalestur á hins vegar við um handrit, sem þegar hafa farið í umbrot, eða jafnvel verið skilað frá prentsmiðju í 1. eða 2. útgáfu prófarkar. Þar er einkum átt við að lagfæra stafsetningrvillur eða innsláttarvillur, en ekki gera umfangsmiklar breytingar á texta.


Á vef Málvísindastofnunar eru málin útskýrð á eftirfarandi hátt:



Með prófarkalestri er átt við að texti er lesinn, ritvillur (stafsetningar- og innsláttarvillur) eru leiðréttar, sem og óumdeildar málvillur, og hugað er að skiptingu orða milli lína. Með handritalestri er hins vegar átt við, auk þess sem felst í prófarkalestri, ítarlegan lestur, ýmiss konar lagfæringar á málfari í textanum og leiðbeiningar um frágang á handriti.


Háskólakennarinn Eiríkur (vísast Rögnvaldsson) ræðir líka um handrita- og prófarkalestur, og gerir það reyndar á mjög viðamikinn og fræðilegan hátt.


En slæmt er þegar skilað er próförk í hendur yfirlesara þar sem málfræðin er fyrir neðan allar hellur og textinn varla boðlegur á prenti, af einhverjum ástæðum. Þá þarf yfirlesari að gera það upp við sig, hvort hann vilji, samvisku sinnar vegna, senda slíkt frá sér athugasemdalaust, eða benda höfundi eða útgefanda á, með dæmum, hversu staða texta sé í raun slæm. Hlutverk hans er, á þessu stigi, aðeins að lagfæra stafsetningarvillur, verstu málfræðivillur og uppsetningu (t.d. skiptingu milli lína, osfrv), en ekki gera umfangsmiklar breytingar á texta. En stundum er ekki hægt að þegja.


En svona er víst staða hins ritaða máls í dag. Kröfurnar eru litlar og væntingar í lágmarki.

Saturday, August 30, 2008

Textagerð og textahönnun fyrir vefsíður



Textahönnun er mikilvægur hluti af góðri vefsíðu.

Af ummælum markaðs-, sölu- og framkvæmdastjóra ólíkra fyrirtækja má ráða, að þeir séu oft hálf feimnir við að skrifa ítarlega texta á vefsíðu fyrirtækisins. Það gildir bæði um hina eiginlegu frumritun, þegar texti er upphaflega settur inn á vefinn, og ekki síður þegar kemur að uppfærslum eða leiðréttingum.

Þeir reyna því gjarnan að drífa það af á mjög skömmum tíma og halda síðan áfram að sinna hefðbundnum verkum sínum. Afleiðingin er því oft sú, að textar verða á löngum köflum ómarkvissir, málfræðilega rangir og jafnvel fráhrindandi. Því þarf að huga vel að textahönnun vefsíðna, eigi þær að skila tilætluðum árangri.

Meðal mikilvægustu atriða eða eftirfarandi:



Viltu vita meira um textagerð fyrir vefsíður? Hafðu samband!