Saturday, August 30, 2008

Textagerð og textahönnun fyrir vefsíður



Textahönnun er mikilvægur hluti af góðri vefsíðu.

Af ummælum markaðs-, sölu- og framkvæmdastjóra ólíkra fyrirtækja má ráða, að þeir séu oft hálf feimnir við að skrifa ítarlega texta á vefsíðu fyrirtækisins. Það gildir bæði um hina eiginlegu frumritun, þegar texti er upphaflega settur inn á vefinn, og ekki síður þegar kemur að uppfærslum eða leiðréttingum.

Þeir reyna því gjarnan að drífa það af á mjög skömmum tíma og halda síðan áfram að sinna hefðbundnum verkum sínum. Afleiðingin er því oft sú, að textar verða á löngum köflum ómarkvissir, málfræðilega rangir og jafnvel fráhrindandi. Því þarf að huga vel að textahönnun vefsíðna, eigi þær að skila tilætluðum árangri.

Meðal mikilvægustu atriða eða eftirfarandi:



Viltu vita meira um textagerð fyrir vefsíður? Hafðu samband!

Monday, August 25, 2008

Nokkur hollráð um veftexta


Veftextar lúta eigin lögmálum sem fæstir þekkja. Vantar þig ráðleggingar um hvernig skrifa skal góðan veftexta?


Fyrsta atriðið er að muna að vefnotendur skanna texta, en lesa þá ekki frá orði til orðs, nema þegar þeir hafa fundið nákvæmlega þær upplýsingar sem leitað er að.


Um 80% vefnotenda skanna síður en lesa þær ekki, eins og þeir myndu lesa prenttexta. Því er mikilvægt að textinn, sér í lagi í anddyrinu (þeirri síðu sem notandinn kemur inn á) og efst á undirsíðum, hafi ákveðna eiginleika, svo sem



  • góða uppsetningu
  • skýrt letur
  • fangi athygli lesendans þegar í upphafi
  • vísi á frekari upplýsingar á undirsíðum
  • innihaldi hefðbundna setningaskipan og viðunandi málfræði

Fleiri atriði mætti svo sem nefna, en látum þessa punkta duga að sinni:

1. Góð uppsetning texta
Mikilvægt er að brjóta textann upp með millifyrirsögnum, nöglum ("bullets) og málsgreinaskilum. Setningar skuli vera stuttar og skýrar.

Aðeins ein hugsun, eða ein umræða, skal koma fram í hverri málsgrein.

Nota skal myndir til stuðnings texta, en ekki skrauts. Miðað er við að ein mynd sé á hverri síðu vefsvæðisins og aðeins í góðum gæðum.

Nota skal feitletrun og áhersluliti í fyrirsögnum og til að leggja áherslu á meginatriði textans, svo sem lykilorð ("keywords") og áhersluatriði. Undirstrikun má ekki nota í megintexta, enda er hún frátekin fyrir tengla ("links").

Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að hafa samræmi í útliti síðna, þannig að þær séu að jafnaði eins uppsettar. Það á einnig við um þau stílbrögð, sem notuð eru við ritun textans.


2. Skýrt letur
Sumir vefstjórar vilja nota lítið letur og smekklegt, t.d. Arial x-small eða xx-small. En ákveðnir ágallar eru á þeim leturstærðum í veftexta.


Það hafa ekki allir notendur samskonar skjáupplausn eða skjástærð og vefstjóri. Texti sem gæti litið ágætlega út í tölvu og veflesara vefstjóra gæti verið ógreinilegur í öðrum. Jafnframt búa sumir við sjónskertu og geta ekki lesið hið smáa letur, sem er því miður víðast hvar notað á íslenskum vefsíðum.


Síðan finnast margir sem kunna ekki að stilla leturstærð í t.d. Internet Explorer.
Hafa ber í huga, að notendur lesa veftexta á 20-25% minni hraða en prentaðan, miðað við venjulega skjáupplausn. Því er mikilvægt að velja rétta leturstærð.


3. Ná athygli lesenda
Veftexti á hefðbundnum síðum er ekki doktorsritgerð. Það er leyfilegt að skrifa skemmtilega og frjálslega, ef gildishlaðin orðnotkun á sér ekki stað.

Mikilvægt er að skrifa greinilega og tala hreint út. Óljóst orðalag eða höfundarbundin orð (þ.e. fræðimál, sjaldséð orð eða slangur, o.s.frv.) fæla fólk frá síðunni. Merking orðanna verður að komast til skila á eins frambærilegan hátt og kostur er.

Nauðsynlegt er að tala til lesandans og þarfir hans. Hann er kominn inn á síðuna í leit að ákveðnum upplýsingum. Textaritari verður að svala þorsta hans eins fljótt og kostur er.

Spakmæli gæti átt við á þessari stundu: "Ritaðu ekki textann fyrst og fremst um þá vöru sem þú vilt selja, heldur fólkið sem þú vilt að kaupi hana".
Með öðrum orðum; textinn í fyrstu málsgrein síðunnar verður að "selja síðuna" eða a.m.k. vera salt á tungu þess sem les, svo hann haldi áfram.

Brandarar og upphrópanir eiga þó ekki við. Enn síður fullyrðingar eins og: "Viltu græða milljón á þremur vikum?" Slík upphafsorð texta er besta leiðin til að hrekja venjulegt fólk á braut.


4. Vísað á frekari upplýsingar með tenglum
Mikilvægt er að stytta mál sitt eins og kostur er, en miðað er að við að veftexti skuli vera um það bil 50% af lengd prenttexta. Það er vissulega erfitt á stundum, en nauðsynlegt. Langlokur geta nefnilega verið þreytandi, sér í lagi þegar efnisinnihaldið er rýrt eða ruglingslegt.

Betra er að brjóta textann í undirsíður eða, eins og hér er gert, að setja inn akkeri á síðuna, svo lesandi þurfi ekki að fletta framhjá upplýsingum, sem hann er hvorki að leita að né hefur áhuga á að kynna sér.

Sérstaklega mikilvægt er að beita tenglum á forsíðu eða fyrstu undirsíðu, þannig að þar komi fram grundvallarupplýsingar sem gefi til kynna hvaða upplýsingar sé að finna á síðunni. Þannig geti notandi fundið þegar í stað þær upplýsingar, sem hann leitar að. Að öðrum kosti er líklegt að hann leiti á önnur mið.



5. Setningaskipan, málfræði og stafsetning
Það þarf varla að taka fram, að stafsetningarvillur eru óæskilegar. Það segir sig sjálft. Auðvitað geta villur alltaf slæðst inn, en margar áberandi villur draga úr trausti lesandans.

Það á ekki síður við málfræðivillur, eins og til að mynda hvað snertir uppbyggingu setninga og þess háttar.Frumlag setningar skal að öllu jöfnu standa fremst, þó stundum bregði menn út af með stílbrögðum. Þannig nær textinn að flæða áfram og lesandinn með.

Æskilegt er að prenta út texta og lesa hann yfir á blaði áður en hann er sendur út á öldur vefvakans, eða í versta falli renna yfir hann lauslega áður en ýtt er á "senda". Jafnframt má prófa að láta
Vefpúkann lesa hann yfir.
En sértu í vafa eða hafir spurningar skaltu endilega hafa samband.

Wednesday, August 20, 2008

Þarf að prófarkalesa vefsíðuna þína?



Getur verið að vefsíðan þín þarfnist prófarkalesturs?



Íslenska er flókið tungumál, jafnvel fyrir Íslendinga. Það þarf ekki annað en að lesa prent- eða netmiðla til að sjá, að víða er pottur brotinn. Færustu íslenskufræðingar gera jafnvel augljósar stafsetningarvillur af og til og bestu yfirlesarar missa af villum í texta. Enn verra er, að færustu sérfræðingar sjá frekar villur í textum annarra en sínum eigin. Því er nauðsynlegt að fá utan að komandi aðila til að lesa yfir texta, sem birta á opinberlega.



Því má alltaf gera betur. Það fyrirfinnst varla "fullkominn texti" á íslensku, ekki síst nú til dags, þegar asinn og hraðinn gefur textasmiðum minni tíma en áður til að semja og senda frá sér vandaðan texta. Það á ekki síst við um þá, sem að jafnaði standa hvorki í slíkum stórræðum né hafa nægjanlegan tíma til að vanda verkið vegna anna við önnur störf.



Ég mæli því með að fyrirtæki velti fyrir sér að fjárfesta að minnsta kosti í prófarkalestri, en betra væri að láta fagmenn annast alla almenna textavinnslu fyrir vefsíður.



Almenn textavinnsla.

Almennur yfirlestur og uppsetning.

Yfirlestur handrita og efnisvinnsla.



Jafnframt má hafa samband varðandi almenna textavinnslu eða prófarkalestur á prentmáli, til dæmis skýrslum og þess háttar, auglýsingum og öðru því efni, sem fyrirtækið sendir frá sér.


Sjá; prófarkalestur